KENNARAR Á HIMA

MIÐ- OG ELDRI DEILD

fiðla

Ari þór vilhjálmsson

Ari Þór Vilhjálmsson býr í Tel Aviv og starfar sem leiðari 2. fiðlu í Israel Philharmonic Orchestra. Hann var áður í sama starfi hjá Fílharmóníu- sveitinni í Helsinki. Ari fæddist í Reykjavík árið 1981 og starfaði um árabil við Sinfóníuhljómsveit Íslands. Hann hefur einnig verið gestakonsertmeistari hljómsveita í Toulouse og Stokkhólmi.

Ari kenndi við Tónlistarskólann í Reykjavík frá 2008-2014 og margir fyrrverandi nemenda hans stunda nú nám við tónlistarháskóla erlendis. Hann kennir hljómsveitarpartaáfanga við Tel Aviv University og vinnur reglulega með nemendum á Íslandi, í Finnlandi og Ísrael. Meðal kennara hans voru Mary Campbell, Guðný Guðmundsdóttir, Rachel Barton Pine, Sigurbjörn Bernharðsson og hjónin Almita og Roland Vamos.

Auður hafsteinsdóttir

Auður er einn af fremstu fiðluleikurum og fiðlukennurum landsins. Hún er stofnfélagi í Trio Nordica og Caput tónlistarhópnum, og kemur reglulega fram á einleiks- og kammertónleikum innanlands og utan. Auður kennir við Menntaskóla í Tónlist, Tónskóla Sigursveins, og tónlistarskólana í Kópavogi og Grafarvogi. Margir nemenda hennar hafa unnið til verðlauna og stunda nám við erlenda tónlistarháskóla.

Auður útskrifaðist frá Tónlistarskólanum í Reykjavík, New England Conservatory og University of Minnesota, þar sem hún lauk mastersgráðu sem nemandi hinna virtu hjóna Almitu og Roland Vamos.

Guðný Guðmundsdóttir

Guðný Guðmundsdóttir var konsertmeistari Sinfóníuhljómsveitar Íslands frá 1974-2010. Á fjörutíu ára kennsluferli hefur hún kennt flestum leiðandi fiðluleikurum landsins við Tónlistarskólann í Reykjavík (nú MÍT) og Listaháskóla Íslands. Hún heldur masterklassa á hverju ári við tónlistarháskóla í Evrópu og Bandaríkjunum.

Guðný hefur tekið upp fjölda platna og geisladiska. Hún hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar fyrir leik sinn, m.a. hina íslensku fálkaorðu árið 1989 fyrir starf í þágu tónlistar. Guðný lærði hjá Birni Ólafssyni og síðar hjá Caroll Glenn við Eastman School of Music og Dorothy DeLay í Juilliard.

SIF MARGRÉT TULINIUS

Sif Margrét starfaði sem 2. konsertmeistari Sinfóníuhljómseitar Íslands frá 2000 - 2016 er hún fluttist til Berlínar þar sem hún lék ásamt fjölmörgum virtum tónlistarhópum um nokkurra ára skeið. Hún hefur verið atkvæðamikil í íslensku tónlistarlífi sem einleikari og kammermúsikant og tekið virkan þátt í flutningi nútímatónlistar.

Sif lauk einleikaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 1991 og hlaut Fulbright styrk til náms í Bandaríkjunum þar sem kennarar hennar voru Almita og Roland Vamos við Oberlin háskólann og síðar Joyce Robbins og Joel Smirnoff við Stony Brook háskólanum í New York.

Sigurbjörn
bernharðsson

Sigurbjörn (Sibbi) hefur verið prófessor í fiðluleik við Oberlin Conservatory frá árinu 2017. Þar áður lék hann með Pacifica strengjakvartettinum í 17 ár, og spilaði yfir 90 tónleika á ári í helstu tónleikasölum heims. Hann vann til fjölda verðlauna ásamt kvartettinum, meðal annars Grammy verðlaun.

Sigurbjörn hefur starfað með listamönnum á borð við Menahem Pressler, Yo-Yo Ma, Leon Fleisher og Emerson strengjakvartettinum. Hann kemur reglulega fram á einleikstónleikum og kennir masterklassa víðs vegar um Bandaríkin, Evrópu og í Asíu. Kennarar hans voru Guðný Guðmundsdóttir, Almita og Roland Vamos, Matias Tacke og Shmuel Ashkenasi.

wei lin sigurgeirsson

Wei Lin er stofnandi og stjórnarformaður Lin Yao Ji tónlistarstofnunarinnar og Lin Yao Ji rannsóknarmiðstöðvar í fiðlukennslu í Kína. Hún stofnaði einnig og var formaður HIMA og Atlanta Festival Academy í Atlanta, Georgia í Bandaríkjunum. Hún hefur skipulagt og haldið meistaranámskeið og tónleika í Peking, Hong Kong og Reykjavík með alþjóðlega þekktum tónlistarmönnum og upprennandi stjörnum og verið dómnefndarmaður á fjölmörgum alþjóðlegum keppnum og hátíðum.

Wei LIn hóf fiðlunám sjö ára gömul hjá föður sínum, prófessor Lin Yao-Ji og átta ára hóf hún píanónám hjá móður sinni, prófessor Hu Shi-Xi. Hún hóf formlegt tónlistarnám við Central Conservatory of Music í Peking. Eftir að hafa hlotið styrk frá Lundúnaborg lauk hún námi við Guildhall School of Music and Drama í London. Hún hefur verið meðlimur í Sinfóníuhljómsveitar Íslands síðan 1990 og starfaði einnig sem konsertmeistari Hong Kong Pan Asia Symphony Orchestra og lék með Baltimore Symphony og Washington Chamber Symphony Orchestra í Washington DC. Hún hefur komið fram sem einleikari og kammertónlistarmaður með Sinfóníuhljómsveit Íslands og ýmsum sveitum í Evrópu, Bandaríkjunum og Asíu.

Wei Lin hefur verið fiðlukennari við Tónlistarskólann í Reykjavík, Purcell School of Music í London og Yip Academy í Hong Kong. Hún var aðstoðarkennari föður síns með hléum frá 1996-2008. Hún hefur jafnframt kennt og haldið meistaranámskeið á Norðurlöndunum, Bandaríkjunum og Kína. Hún hefur haldið erindi um líf og kennsluaðferðir og fræði föður síns og hefur skrifað kennsluefni í hans stíl sem kemur út í lok árs 2024.

Judith ingólfsson

Judith Ingolfsson er prófessor við Peabody Institute við John Hopkins háskóla í Baltimore.

Judith fæddist í Reykjavík og hóf fiðlunám aðeins þriggja ára. Hún var aðeins átta ára þegar hún lék inn á hljóðritun sem einleikari með Sinfóníuhljómsveit Íslands og kom nokkrum vikum síðar fyrst fram á alþjóðlegu sviði. Fjórtán ára fluttist hún til Bandaríkjanna og komst inn í hinn virta skóla Curtis Institute of Music þar sem Jascha Brodsky var kennari hennar. Judith lauk síðan meistaragráðu og diplómanámi frá Cleveland Institute of Music þar sem hún lærði hjá David Cerone og Donald Weilerstein.

Judith hefur bæði unnið tónlistarkeppnir, verið staðarlistamaður og haldið tónleika í mörgum af helstu tónleikahúsum veraldar. Hún hefur komið fram jafnt sem einleikari, í flutningi kammertónlistar og sem einleikari með hljómsveitum. Judith hefur einnig leikið inn á fjölda platna. Hún hefur verið listrænn stjórnandi tónlistarraða og -hátíða, meðal annarra hinnar frönsku Aigues-Vives en Musiques akademíunnar og tónlistarhátíðarinnar þar sem hún er listrænn stjórnandi ásamt eiginmanni sínum, hinum virta píanóleikara Vladimir Stoupel.

Judith leikur á Lorenzo Guadagnini fiðlu, smíðuð 1750 og víólu, smíðuð af Yair Hod Fainas.

Víóla

ÁSDÍS VALDIMARSDÓTTIR

Ásdís er prófessor í víóluleik við konunglega tónlistarsháskólann í Den Haag. Hún var áður leiðari við Kammerphilharmonie Bremen og víóluleikari Chilingirian strengja-kvartettsins í mörg ár.

Ásdís hefur leikið inn á fjölda geisladiska, m.a. öll strengjatríó Beethovens með Brunsvik tríóinu. Nýjasti diskur hennar kom út í janúar ‘22 með útsetningum hennar á verkum Schuberts fyrir einleiksvíólu.

Ásdís stundaði nám við Juilliard og í Þýskalandi.

Þórunn Ósk Marinósdóttir

Þórunn Ósk er leiðari víóludeilar Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Hún lærði við konunglega tónlistarháskólann í Brüssel hjá Ervin Schiffer. Þórunn hefur leikið einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Kammersveit Reykjavíkur, Prima la Musica og hljómsveit Sumida Triphony Hall í Tokyo.

Þórunn kennir víóluleik og kammertónlist við Menntaskóla í Tónlist og Listaháskóla Íslands. Hún er mjög virkur kammermúsikspilari og kemur fram á fjölmörgum kammertónleikum á hverju ári. Hún er jafnframt stofnfélagi í Strokkvartettinum Sigga sem hefur frumflutt fjölda nýrra verka síðan 2012.

selló

michael (Mick) sterling

Michael (Mick) Stirling lærði á selló við Guildhall School of Music hjá Leonard Stehn og Raphael Wallfisch. Hann hélt áfram námi við Banff Centre í Kanada og hjá Lawrence Lesser við New England Conservatory í Boston. Aðrir leiðbeinendur voru m.a. David Takeno, Hans Keller, Louis Krasner, Eugene Lehner, Colin Carr og Bernard Greenhouse. Michael var sellóleikari Ensemble Modern í Frankfurt í Þýskalandi og meðlimur í Raphael Ensemble í London og hljóðritaði fjölmargar hljómplötur fyrir Hyperion. Hann lék með Brindisi-kvartettinum í London sem og ýmsum kammerhópum og var gesta-leiðari sellódeildarinnar í ýmsum hljómsveitum, m.a.: The Philharmonia Orchestra, London Symphony Orchestra, Royal Philharmonic Orchestra, London Philharmonic Orchestra, English Chamber Orchestra og The Scottish Chamber Orchestra. Mick flutti til Amsterdam árið 2004 og varð fyrsti aðalsellóleikari Fílharmóníuhljómsveitar hollenska útvarpsisn. Hann lék reglulega með Kammersveit Evrópu í mörg ár og er meðlimur í Nieuw Amsterdams Peil, The Brunsvik String Trio. Hann hljóðritaði sellókonsert Hindemith (Kammermusik nr. 3) fyrir RCA með Marcus Stenz og Ensemble Modern sem hlaut þýsku gagnrýnendaverðlaunin. Sveit hans, Brunsvik strengjatríóið, hljóðritaði nýlega öll strengjatríó Beethovens á geisladisk fyrir Zefir plötur og „Divertimento“ eftir Mozart. Mick hefur verið kennari við sellódeild Tónlistarháskólans í Amsterdam síðan 2014.

Selló Micks er fallegt hljóðfæri frá Joseph Hill, smíðað 1770.

Sigurgeir Agnarsson

Sigurgeir Agnarsson er leiðari sellódeildar Sinfóníuhljómsveitar Íslands og yfirmaður strengjadeildar Menntaskólans í Tónlist. Hann útskrifaðist frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 1995 og stundaði framhaldsnám við New England Conservatory hjá David Wells og einnig við Hochschule für Musik í Düsseldorf hjá Johannes Goritzki.

Sigurgeir hefur leikið einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Bochumer Symphoniker og Kammersveit Reykjavíkur, og tekið upp fyrir RÚV og Naxos. Hann er einnig listrænn stjórnandi Reykholtshátíðar, og leikur reglulega á einleiks- og kammertónleikum bæði innlands og utan.

SIGURÐUR BJARKI GUNNARSSON

Sigurður Bjarki hefur verið meðlimur í Sinfóníuhljómsveit Íslands frá árinu 2002 og er jafnframt kennari við Listaháskóla Íslands og Menntaskóla í tónlist. Hann er stofnfélagi í Strokkvartettinum Sigga sem hefur verið áberandi í tónleikahaldi og upptökustarfi undanfarin ár og hlaut meðal annars Íslensku tónlistarverðlaunin 2018 sem tónlistarhópur ársins.

Sigurður Bjarki lauk einleikaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 1995 undir handleiðslu Gunnars Kvaran. Sigurður lauk Bachelors-prófi frá Manhattan School of Music árið 1998 og Masters-prófi frá Juilliard-skólanum í New York árið 2000.

MEÐLEIKARAR

Þóra kristín gunnarsdóttir

Þóra Kristín Gunnarsdóttir hefur komið fram á tónlistarhátíðum og tónleikum víðsvegar um Sviss og Ísland. Á Íslandi hefur hún komið fram m.a. á Sígildum sunnudögum og Velkomin heim í Hörpu, Klassík í Vatnsmýrinni og á tónlistarhátíðinni Seiglu. Hún starfar aðallega við meðleik og kammertónlist en á árinu 2021 kom hún einnig fram sem einleikari með ZHdK Strings í Sviss og í Hörpu í Reykjavík, auk þess að taka þátt í Beethoven-tónleikaröð í Salnum í Kópavogi. Í Sviss hefur hún komið fram m.a. á tónlistarhátíðinni Chesa Planta Musiktage og á tónleikum á vegum Liedrezital Zürich. Síðastliðin fjögur sumur hefur hún verið meðleikari á masterklassnámskeiðum fyrir söngvara í Frakklandi. Þóra hóf tónlistarnám sitt á Akureyri hjá Dýrleifu Bjarnadóttur og lærði síðar hjá Peter Máté við Tónlistarskólann í Reykjavík. Hún lauk meistaragráðu í píanókennslu og píanóleik með kammertónlist sem aukagrein frá tónlistarháskólanum í Luzern árið 2017. Árið 2020 lauk hún annarri meistaragráðu í kammertónlist og meðleik frá listaháskólanum í Zürich, þar sem aðalkennari hennar var píanóleikarinn Friedemann Rieger. Hún sótti þar einnig reglulega tíma hjá m.a. Christoph Berner og Eckart Heiligers. Hún hefur sótt masterklassnámskeið hjá m.a. Thomas Hampson, Joseph Breinl og Ewa Kupiec. Þóra starfar sem meðleikari við Menntaskóla í tónlist og Tónlistarskóla Hafnarfjarðar.

Vladimir Stoupel

Vladimir Stoupel er hljómsveitarstjóri og píanóleikari. Hann hefur komið fram sem einleikari um allan heim, m.a. með Fílharmóníuhljómsveit Berlínar, hljómsveit Konzerthaus Berlin, Sinfóníuhljómsveit bæverska útvarpsins, Sinfóníuhljómsveit útvarpsins í Berlín, Staatskapelle Weimar, Staatskapelle Mainz, Wheeling Symphony, Lancaster Symphony og Lake Placid Sinfonietta. Hann hefur starfað með hljómsveitarstjórum eins og Christian Thielemann, Michail Jurowski, Leopold Hager, Marek Janowski, Steven Sloane, Stefan Malzew, Patrik Ringborg og Günther Neuhold. 

Vladimir Stoupel hefur komið fram á mörgum af þekktustu sviðum heimsins, þar á meðal Berlínarfílharmóníunni, Konzerthaus í Berlín, Avery Fisher Hall í New York, Grosse Musikhalle í Hamborg og Konzerthaus í Dortmund, svo eitthvað sé nefnt. Af hátíðum má nefna hina virtu tónlistarhátíð í Slésvík-Holstein, Piano en Valois (Frakkland), Brandenburgische Sommerkonzerte (Þýskaland), Printemps des Arts í Monte Carlo og Helsinki-hátíðina. Ásamt Judith Ingólfssyni fiðluleikara er hann listrænn stjórnandi og stofnandi alþjóðlegu hátíðarinnar Aigues-Vives en Musiques (Frakklandi) auk listræns stjórnanda alþjóðlegu hátíðarinnar The Last Rose Of Summer í Berlín. Hann hefur leikið inn á fjölmargara hljóðritanir og hlotið tilnefningar og virt verðlaun fyrir.

Vladimir Stoupel stjórnar reglulega kammeróperum í Konzerthaus Berlin og starfar með fjölda hljómsveita og kammerhópa.

Vladimir Stoupel, sem hefur verið franskur ríkisborgari síðan 1985, býr nú í Berlín. Árið 2022 var hann sæmdur frönsku reglunni „Chevalier des Arts et des Lettres“.


YNGRI DEILD

fiðla

GRÓA MARGRÉT VALDIMARSDÓTTIR

Gróa Margrét Valdimarsdóttir fiðluleikari er deildarstjóri Yngri deildar HIMA. Gróa útskrifaðist með B. Mus gráðu í fiðluleik  frá Listaháskóla Íslands undir handleiðslu Auðar Hafsteinsdóttur árið 2006. Að loknu námi í Listaháskólanum fór hún til Þýskalands og síðan til Bandaríkjanna þar sem hún kláraði M. Mus gráðu í fiðluleik frá University of Illinois undir handleiðslu Sigurbjörns Bernharðssonar. Þá stundaði hún nám við The Hartt School hjá Anton Miller og útskrifaðist árið 2011 með Graduate Professional Diploma og Artist Diploma vorið 2013. Gróa Margrét hefur einnig lokið 5. Stigi í Suzukikennaranámi hjá Lilju Hjaltadóttur og starfar nú sem Suzukikennari og skólastjóri við Allegro Suzukitónlistarskóla.

Gróa Margrét hefur komið fram sem einleikari með ýmsum hljómsveitum og má þar helst nefna Foot in the Door Contemporary Ensemble, Sinfóníuhljómsveit Unga fólksins, University of Illinois Symphony Orchestra og Hartt Collegium Musicum. 

Gróa er mikill áhugamaður um flutning nýrrar tónlistar og hafa nokkur verk verið tileinkuð henni sérstaklega, þar á meðal, fiðlukonsert eftir Benjamin Park sem hún frumflutti árið 2013 með Foot in the Door Contemporary Ensemble. Hún er einnig annar tveggja listrænna stjórnenda samtímatónlistarhátíðarinnar New Music for Strings á Íslandi. Gróa Margrét hefur einnig mikinn áhuga og metnað fyrir upprunaflutningi barokktónlistar og kemur reglulega fram á tónleikum ýmist með hljómsveitum eins og Barokkbandinu Brák og Alþjóðlegu Barokksveitinni í Reykjavík og smærri kammerhópum. Gróa Margrét leikur einnig reglulega með Sinfóníuhljómsveit Íslands og Sinfóníuhljómsveit Norðurlands ásamt fleiri hljómsveitum. 

aðalheiður matthíasdóttir

Aðalheiður er Suzukikennari og hefur kennt fjölmörgum nemendum í gegnum tíðina. Hún kennir við Tónskóla Sigursveins í Reykjavík þar sem er afar blómlegt strengjastarf og er þar deildarstjóri í Suzuki- og strengjadeild. Auk þess hefur hún kennt á mörgum námskeiðum m.a. á vegum HIMA og Íslenska Suzukisambandsins. 

helga steinunn torfadóttir

Helga Steinunn Torfadóttir hóf fiðlunám sitt 9 ára gömul. Hún lærði hjá Lilju Hjaltadóttur á Akureyri og Guðnýju Guðmundsdóttur við Tónlistarskólann í Reykjavík, og síðar hjá Elisabeth Zeuthen Schneider við Konunglega konservatoríið í Kaupmannahöfn. Helga Steinunn hefur verið virk í tónlistarlífinu og hefur leikið meðal annars með Sinfóníuhjómsveit Íslands og hljómsveit Íslensku óperunnar. Hún kennir við Suzukitónlistarskólann í Reykjavík og Allegro Suzukitónlistarskólann.

Kristín björg ragnarsdóttir

Kristín Björg er fiðlukennari við Tónlistarskóla Garðabæjar og er einnig stjórnandi strengjasveitar skólans. Hún kennir bæði ungum börnum sem og langt komnum nemendum og er með fulla menntun í Suzukiaðferðinni. Hún hefur verið virk í íslensku tónlistarlífi og leikur reglulega með Sinfóníuhljómsveit Íslands og hljómsveit Íslensku Óperunnar.

Kristín hóf að spila á fiðlu 8 ára gömul og lærði hjá Hlíf Sigurjónsdóttur og Guðnýju Guðmundsdóttur. Hún hélt svo til framhaldsnáms í New York hjá Gerald Beal og Masao Kawasaki. Hún lauk mastersgráðu árið 2004 og flutti þá til Belgíu þar sem hún vann m.a. með Die Filharmonie Antwerpen.

Lilja Hjaltadóttir

Lilja Hjaltadóttir er deildarstjóri yngri deildar HIMA. Lilja er fiðlukennari og aðstoðarskólastjóri Allegro Suzukiskólans hefur tvímælalaust lengstu og mestu reynslu af Suzukikennslu á Íslandi. Lilja lauk fiðlukennaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 1978, og mastersprófi frá Southern Illinois University í Edwardsville. Aðalkennari hennar þar var John Kendall, einn af frumkvöðlum Suzukikennslu í Bandaríkjunum. Lilja hefur þjálfað fiðlukennara á Íslandi og víðar í Evrópu og er eftirsóttur kennari. Hún hefur kennt í Póllandi, Englandi, Írlandi, Þýskalandi, Svíþjóð, Spáni, Danmörku, Færeyjum, Belgíu og Eistlandi. Lílja hefur einnig leikið með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Kammersveit Reykjavíkur og Bachsveitinni í Skálholti.

selló

Helga Björg Ágústsdóttir

Helga Björg Ágústsdóttir sellóleikari hóf nám 6 ára gömul hjá Pétri Þorvaldssyni heitnum við Nýja Tónlistarskólann og lauk burtfararprófi frá Tónlistarskólanum í Garðabæ árið 1992 þar sem kennari hennar var Bryndís Halla Gylfadóttir. Hún stundaði svo framhaldsnám við Sweelinck Conservatorium í Amsterdam undir handleiðslu Dmitri Ferschtman og Melissa Phelps. Undanfarin ár hefur hún kennt við Tónlistarskóla Garðabæjar og Nýja Tónlistarskólann. Þá hefur hún leikið með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Hljómsveit Íslensku Óperunnar, Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og er meðlimur í Íslenskum Strengjum.

MEÐLEIKARAR

Guðrún Dalía salómonsdóttir

Guðrún Dalía stundaði píanónám við Tónlistarskólann í Reykjavík, Tónlistarháskólann í Stuttgart og í París. Hún hefur haldið fjölda tónleika, innanlands sem utan, sem einleikari og í ýmsum hljóðfærahópum og ekki síst sem meðleikari söngvara. Guðrún hefur hlotið fjölda styrkja og viðurkenninga, þ.á m. 1. verðlaun í píanókeppni EPTA í Salnum. Út hafa komið geisladiskar með leik hennar með sönglögum Jórunnar Viðar og Karls O. Runólfssonar. Guðrún Dalía starfar sem meðleikari við Tónlistarskóla Garðabæjar.


UNGLISTAFÓLK

EMMA GARÐARSDÓTTIR

Emma Garðarsdóttir, fædd 1998, byrjaði í fiðlunámi árið 2001 í Tónskóla Sigursveins þar sem hún lærði meðal annars hjá Auði Hafsteinsdóttur. Síðar var förinni heitið til Kaupmannahafnar þar sem hún lauk bakkalárs og meistaragráðu frá Konunglega danska tónlistarkonservatoríinu með Elisabeth Zeuthen Schneider og Frederik Øland sem leiðbeinendur. Emma er virkur kammertónlistamaður og leikur fyrstu fiðlu í strengjatríóinu Tríó Sól sem var stofnað 2020, hún hefur einnig leikið með kammertónlistamönnum á borð við Danska Strengjakvartettinn, Trío Corelli, og ýmsum strengjaleikurum úr Fílharmóníusveit Kaupmannahafnar. Einnig spilar hún mikið í hljómsveitum, hún er einn fjögurra fiðluleikara í Lumbye Hljómsveitarakademíu Fílharmóníusveit Kaupmannahafnar, og spilar sem aukamaður í Sinfóníuhljómsveit Íslands.

ANNA ELÍSABET SIGURÐARDÓTTIR

Anna Elísabet Sigurðardóttir, víóluleikari, fæddist árið 1997 í Reykjavík. Hún spilar reglulega með Sinfóníuhljómsveit Íslands ásamt því sem hún hefur kennt í Tónlistarskóla Kópavogs og Tónskóla Sigursveins. Anna er meðlimur Píanókvartettsins Neglu, kammersveitarinnar Elju og kemur reglulega fram með ýmsum kammerhópum. Hún hefur komið fram á fjölda tónleikaraða og þar má nefna Sígilda sunnudaga, Tíbrá, Feima, Reykjavík Classics, Seiglu og á Sumartónleikaröð Listasafns Sigurjóns Ólafssonar auk þess að taka virkan þátt í tónlistarsenu Kaupmannahafnar. Anna hefur spilað sem gestur með Kammersveit Reykjavíkur​ og CAPUT auk þess að spila reglulega með Fílharmóníusveit Kaupmannahafnar.

Fyrstu árin lærði hún hjá Ásdísi Runólfsdóttur og lauk síðan framhaldsprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík undir handleiðslu Þórunnar Óskar Marinósdóttur árið 2017. Vorið 2022 lauk hún meistaragráðu frá Det Kongelige Danske Musikkonservatorium í Kaupmannahöfn þar sem hún lærði hjá Tim Frederikssen og Magda Stevensson.

HJÖRTUR EGGERTSSON

Hjörtur Páll Eggertsson hóf sellónám fimm ára gamall. Fyrsti kennari hans var Örnólfur Kristjánsson, en hann stundaði síðar frekara nám hjá Sigurgeiri Agnarssyni og Gunnari Kvaran. Hjörtur hefur komið reglulega fram með ýmsum kammerhópum og leikið einleik með Hljómsveit Tónlistarskólans í Reykjavík, Sinfóníuhljómsveit unga fólksins og með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Hjörtur er meðlimur Kammersveitarinnar Elju ásamt því að vera aukamaður hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands. Eftir að hann lauk framhaldsprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík vorið 2017, hélt Hjörtur til Kaupmannahafnar í framhaldsnám við Det Kongelige Danske Musikkonservatorium undir handleiðslu Morten Zeuthen og Toke Møldrup. Samhliða sellónáminu hefur hann lagt stund á hljómsveitarstjórnun og var nemandi við Malko Akademíuna í samstarfi við Dönsku Útvarpshljómsveitina frá 2020-2022. Haustið 2023 hélt hann áfram í frekara stjórnendanám við Conservatorium van Amsterdam hjá Ed Spanjaard.